Hvað er Fatimusjóður-hvert skal vera hlutverk hans og Sagan öll

Fyrsti hópurinn sem við studdum 2005-2006 við miðstöðina í Sanaa. Mynd Saskia von Nellen

FATIMUSJÓÐUR var stofnaður 14.febr. 2005.
Stofnskrá hans var mjög einföld í fyrstu en hefur síðan verið endurbætt sem hér segir

1.gr. Sjóðurinn heitir Fatimusjóður. Heimili og varnarþing er að Drafnarstíg 3,101 R

2.gr.A) Markmið hans er að styrkja jemensk börn í Sanaa til að komast í skóla með árlegu framlagi
B) Styrkja jemenskar konur á fullorðins- og saumanámskeið með árlegu framlagi
C) Greiða árlega laun fyrir amk einn kennara eftir því sem efni og aðstæður leyfa
D) Halda uppi reglulegri kynningu til styrkarmanna um starfssemi og stöðu sjóðsins. Senda árlega skýrslu til styrktarfólks um framvindu
E) Leggja liðsinni við að koma á laggirnar nýrri og stærri byggingu eftir því sem aðstæður leyfa
F) Vera amk um ótiltekinn tíma í samstarfi við hjálparsamtök í Jemen sem vinna að ofangreindu markmiði.
G) Leggja til fé til að fjármagna tæki og búnað eftir því sem unnt er.
H) Kynna starfssemi sjóðsins m.a. í skólum, á fundum og við hvert það tækifæri sem til gefst.
I) Með hæfilegri fjölmiðlaumfjöllun
J)Lögð er áhersla á að leita til ráðuneyta utanríkis- og menntamála um stuðning.

3. gr. Stofnframlag sjóðsins telst vera 350 þúsund sem Jóhanna Kristjónsdóttir lagði fram 15.febr 2005 og 160 þús. kr. sem safnaðist á næstu dögum.

4.gr. Forsvarsmaður sjóðsins er stofnandi hans, Jóhanna Kristjónsdóttir og aðrir ábyrgðarmenn eru Guðlaug Pétursdóttir og Rannveig Guðmundsdóttir. Lögfræðilegur ráðgjafi er Ragný Guðjohnsen.

5.gr. Markmiðum skal sjóðurinn ná með því að leita til félagsmanna VIMA- vináttu og menningarfélags Miðausturlanda og annarra þeirra sem hug hafa á því að leggja honum lið.

6.gr. Sjóðurinn skal ávaxtaður með bestu fáanlegu vöxtum á hverjum tíma.

7.gr Aldrei skal vera lægri upphæð í sjóðnum en 250 þúsund.

8.gr. Verði hætt úthlutun úr sjóðnum eða hann lagður niður af einhverjum ástæðum skal það sem fyrir er í honum renna til menntunar barna/fullorðinna kvenna í Jemen.

Sagan öll
Eftir Jóhönnu Kristjónsdóttur

Jemen er fátækasta ríki Arabaheimsins. Þar búa rösklega 20 milljónir og þar er atvinnuleysi ákaflega mikið vandamál. Fjölskyldur eru stórar og algengt að hjón eigi 10-14 börn.
Þó skólaskylda sé að nafninu til er henni ekki framfylgt af yfirvöldum að gagni. Vegna fátæktar leggur fólk oft og skiljanlega meira kapp á að afla sér lífsviðurværis en senda börn í skóla.
Einatt fer elsti sonur í fjölskyldu í skóla en tilviljun ræður ef hin fá að ganga í skóla. Talið er að um 60 prósent kvenna/stúlkna séu ólæsar.

Ég hafði komið til Jemens nokkrum sinnum og var þar við arabískunám einn vetur. Mér fannst átakanlegt hve staða fólks – einkum kvenna var bágborin og hvað stjórnvöld gerðu fátt til að bæta þar úr.

Þegar ég fékk verðlaun Hagþenkis um miðjan febrúar fyrir röskum tveimur árum fyrir Arabíukonur og átti afmæli daginn áður fannst mér kjörið að nota hluta af þessum verðlaunum til að stofna sjóð til að reyna að aðstoða jemenskar stúlkur. Upphæðin var ekki há, um 350 þúsund kr.(reiknaði með að skattmann mundi girnast hinn helming verðlaunafjárins) en ég vonaðist eftir stuðningi víðar að. Það kann að vera hlálegt að stofna sjóð með 350 þús. kr framlagi upphaflega en þar sem ekki var meira til í byrjun var rétt að setja í bjartsýnisgírinn og það hefur líka sýnt sig að hafa verið happadrjúgt.

ÁSTÆÐAN FYRIR NAFNGIFTINNI

Ég nefndi hann Fatimusjóð og ástæðan er sú að ég kynntist unglingsstúlkunni Fatimu í Jemen þegar ég vann að Arabíukonum. Hún var þá 14 ára og hafði hætt í skóla vegna þess að ekki voru efni til að halda úti skóla í þorpinu hennar og hún þurfti einnig að taka við lítilli búð sem systir hennar hafði rekið.

Eftir að spurðist út um víðtækan stuðning Íslendinga við börn í Sanaa var ákveðið að setja skóla í þorpinu aftur á laggirnar. Meðfram námi sér Fatíma um verslunina. Hún lýkur grunnskóla eftir tvö ár og fer þá til Sanaa í tveggja ára framhaldsnám og síðan stefnir hún að háskólanámi.

Hún er mjög athyglisverð stúlka í þessu samfélagi, því nú er hún 18 ára og hefur þegar fengið nokkur bónorð. Hún hefur hafnað biðlunum af því hún ætlar að halda til streitu að fara í skóla.

Ég leitaði til félaga í Vináttu og menningarfélagi Miðausturlanda um aðstoð og fékk góðar undirtektir.
Síðan gerðist ekkert næstu mánuði meðan ég reyndi að finna einhverja þá í Jemen sem ég gæti treyst til að hrinda þessu í framkvæmd svo allir sem legðu fram fé gætu verið vissir um að það færi á réttan stað en ekki í hendur milliliða og gervifólks.

SAMBAND NÆST VIÐ YERO- miðstöð Nouriu Nagi

Í ferð með hóp til Jemen vorið 2005 komst ég í kynni við bandaríska konu, Catherine Higgins og sagði henni frá áhuga mínum. Hún benti mér þá á Nouriu Nagi sem ári fyrr hefði sett á stofn miðstöð í Sanaa í þessu skyni.
Þar kom einnig fram að hún hefði stutt nokkrar ungar stúlkur til kennaranáms vegna fyrirætlana sinna.

Ég hafði samband við Nouriu Nagi, kynnti mér heimasíðu samtakanna YERO, Yemeni Education and Relief Organization.

Markmiðið féll að hugmyndum mínum og eftir að hafa rætt við Nouriu, hitt hana og kynnt mér starfsemina, leitaði ég enn til VIMA félaga.

Hvað kostar að styrkja barn og hvernig gerum við það?

Með því að greiða upphæð sem svaraði 230 dollurum á ári gat barn komist í skóla, fengið skólabúning, skólavörur, reglulega læknisskoðun, leiðbeiningar og aðstoð við heimanám tvisvar í viku í miðstöðinni, kennslu í handmennt og tónlist – sem ekki er í boði í jemenskum skólum – flíkur fyrir hátíðir og fjölskyldan var studd með matargjöfum þegar mjög illa stóð á – sem var oftar en ekki.

Ég kynnti þetta á heimasíðunni minni og hafði áður sagt Nouriu að við gætum ugglaust aflað stuðnings fyrir amk tíu börn árið 2005-2006.
En viðbrögðin voru slík að áður en við var litið voru komnir styrktarmenn 37 barna.
Um áramótin 2006 hleypti Nouria svo af stað fullorðinsfræðslunámskeiði fyrir konur, flestar ólæsar og skyldu þær einnig læra saumaskap.
Þetta fékk hljómgrunn og styrktum við allar þær 18 konur sem sóttu námskeiðið.
Um vorið 2006 fór ég með hópi Íslendinga í Jemenferð í miðstöðina og hittu þeir Nouriu og skoðuðu miðstöðina. Einn félaganna gerði disk um þá ferð og ákvað að gefa Fatimusjóði ágóðann sem þýddi að við gátum borgað hluta launa til handmenntakennara og tónlistarkennara.

Æ fleiri styrktarmenn bættust við

Í ágúst 2006 þegar börn hófu að rita sig aftur í skóla bættust við enn fleiri styrktarmenn og endaði með því að skólaárið 2006-2007 styrktum við 72 börn- þ.e. fjöldinn nánast tvöfaldaðist. Einnig styrktum við allar 24 konurnar sem árið 2007 sóttu fullorðinsfræðslunámskeiðið. Einn félaga gaf sömuleiðis andvirði saumavélar því ákveðið var að veita tveimur nemendum verðlaun- þ.e. þeim sem best höfðu staðið sig.

Nú í vor 2007 fór enn hópur í stöðina og hittu þá ýmsir “foreldrar” börn sín við mikinn fögnuð og hrifust af því starfi sem þarna er unnið.

Alls eru um 250 börn studd en 350 börn eru á biðlista núna og stöðin hefur sprengt húsnæðið utan af sér vegna þess hve aðsókn hefur aukist. Börnin gera sér grein fyrir mikilvægi þess og foreldrarnir líka. Ýmsar konur á fullorðinsfræðslunámskeiðinu drifu sig á þau eftir að börn þeirra fengu þessa hjálp.

Ekki auglýsingablástur fyrr en ljóst var að við gerðum gagn

Tekið skal fram að ég ákvað að halda þessu innan VIMA félaga, að minnsta kosti í byrjun. Mér fannst hyggilegra að sjá hvernig fram yndi áður en ég færi víðar.
Nú er komin tveggja ára reynsla á þessa aðstoð okkar og hún hefur skilað þeim árangri að við getum verið stolt af. En nú er líka tímabært að leita til fleiri og ég er sannfærð um að við náum einhverjum eyrum og fáum stuðning.

Nú er komið að því að kaupa stærri miðstöð

Umfram annað þykir mér nauðsynlegt að við að kaupa stærra húsnæði en hún er í leiguhúsnæði með stöðina sem er orðin alltof lítil – vegna þess hve vel hefur gengið- og býr því einnig við öryggisleysi þess að vera leigjandi. Nouria hefur aflað sér upplýsinga um verð á stærra húsnæði sem mundi henta og verð er áætlað um 20 milljónir en vænta má að síðan mundi bætast við kostnaður við að búa stöðina ýmsum tækjum og búnaði.
Þegar farið var að kanna málið kom raunar í ljós að þessi upphæð stóðst engan veginn og mátti ætla að við þyrftum að greiða helmingi hærra fyrir hús sem gæti hentað í þesu skyni.

Nouria hafði búið um langt skeið í Englandi en ákvað eftir skilnað við eigimann sinn að flytja heim til Jemens og hafði blundað í henni löngun til að bæta hag stúlkubarna í Jemen hvað menntun snertir.
Eftir að hún kom heim fór hún reglulega í heimsókn í Kvennafangelsi í Sanaa og einnig í Betlaramiðstöðina en þangað er farið með fólk – börn, unglinga og eldra fólk – sem er staðið að betli sem er ólöglegt.
Nouria er væntanleg í vikuheimsókn til Íslands um mánaðamótin sept/okt til að hitta bakhjarla og vonandi fleiri sem vilja leggja þessu máli liðsinni

Sögur af nokkrum börnum sem við styðjum.

Sögurnar um stúlkurnar sem hér fara á eftir njóta allar stuðnings íslenskra.
Það var stúlkan Fatten Bo Belah sem kveikti hugmyndina að miðstöðinni hjá Nouriu.
Hún hitti hana í Betlaramiðstöðinni og gaf sig á tal við Fatten sem var þar í fimmta skipti og spurði hana hvort hún hefði áhuga á að fara í skóla. Fatten var þá 9 ára sagði að það væri draumur sinn. En það væri bara draumur því faðir hennar væri eignalaus eftir að hafa ásamt millljón öðrum Jemenum verið rekinn eignalaus frá Saudi Arabíu þegar Jemenstjórn lýsti stuðningi við innrás Saddams Hussein í Kúveit.

Fatten sagði Nouriu að faðirin væri hjartasjúklingur og móðirin sykursjúk og öll systkinin fengjust við betl svo þau gætu að minnsta kosti átt fyrir salti í grautinn.
Nouria ákvað að sannreyna að ástæður stúlkurnnar væru eins og hún lýsti og eftir það ákvað hún að hjálpa henni.
Síðan hefur þetta undið upp á sig og yngri systir hennar Hind er einnig komin í skóla.

Önnur athyglisverð saga er Asma Attea. Móðirin glímir við geðsjúkdóm og misþyrmdi börnum sínum líkamlega.
Öll fjölskyldan betlaði þegar hún gat því móðurin var óvinnufær og faðirinn ómenntaður og atvinnulaus.
Nouria hitti hana líka í Betlaramiðstöðinni en sagðist hafa séð eitthvað í fari hennar sem vakti von. Það hefði komið í ljós að jafnskjótt og stúlkan fékk að spreyta sig gjörbreyttist hún. Hún er kvikk og einstaklega listfeng og hefur fengið sérstaka þjálfun í teikningu og meðferð lita með góðum árangri.

Þriðja sagan er um Feyrús. Hún hætti í skóla fimmtán ára, gifti sig og eignaðist þrjú börn. Við skilnað fékk maðurinn börnin því Feyrús hafði enda enga möguleika á að sjá fyrir þeim.
Hún ákvað því að setjast á skólabekk aftur 22ja ára og með styrk fékk hún aukið sjálfstraust og keppir að því að ljúka prófi og fá börn sín aftur.
Hún hefur einnig sótt saumanámskeiðið og var önnur tveggja sem fékk viðurkenningu og saumavél í verðlaun fyrir góða frammistöðu. Hún hefur sýnt mikla listræna hæfileika og teiknar og málar hvenær sem tími gefst til.
Síðustu mánuði hefur Feyrús átt við veikindi að stríða. Var í fyrstu talið að hún væri með MS sjúkdóminn en sem betur fer lítur ekki út fyrir það. Lyfjameðferð var þó mjög dýr svo og rannsóknir en við höfum sent peninga til að hún fengi almennilega rannsókn og er líðan hennar nú betri


Fjórða sagan er um Al Matari fjölskylduna. Við styrkjum fjórar dætur hennar,
Takeyah, Hanan, Hanak og Hayat. Þær eru fyrirmyndarnemendur og mæta alltaf. Móðir þeirra Sayeda hefur sótt bæði saumanámskeiðin.
Hún vinnur við ræstingar og er mjög metnaðargjörn fyrir hönd barna sinna. Hún var ólæs og óskrifandi en vill fikra sig áfram svo hún geti aðstoðað börn sín. Fjölskyldan býr í 2ja herbergja íbúð í verksmiðju þar sem faðirinn er næturvörður en hefur ekki laun önnur en húsnæðið.
Móðirin sem er ómenntuð er á því fullorðinsfræðslu og saumanámskeiði sem nú stendur yfir og er studd af Íslendingi

Þá má geta drengsins Abdulrahim Al Feisal. Hann er munaðarlaus og hefur ekki fastan samastað. Eftir að hann fékk styrk til að fara í skóla hefur hann stundað nám af kappi þó hann viti ekki alltaf hvar hann getur hallað höfði sínu að kvöldi.

Tvær systur Nagiba og Asia eru báðar fatlaðar og vaxa ekki eðlilega. Þær hafa staðið sig vel og eru samviskusamar. Gengið hefur verið úr skugga um að trúlega væri uppskurður hættulegur þar sem líkur eru á lömun.
Móðir þeirra Raefa Omar sótti fullorðinsfræðslunámskeiðin og staðið sig með prýði.

Alls voru studdar 24 konur á fullorðinsfræðslu og saumanámskeiðinu 2006-2007 og 72 börn voru styrkt 2006-2007. Sum barnanna eru að nálgast háskóla en þurfa að vinna eitt ár við samfélagsþjónustu áður en þau fara í háskóla.

Þetta skólaár 2007-2008 hafa bæst við 39 börn

Skólaárið 2007-2008 styrkjum við 110 börn og einnig aðstoðum við fjáröflun til að kaupa nýja miðstöð. Við styrkjum einnig fullorðinsfræðslunámskeið sem 24 konur sækja. Þá höfum við greitt laun tveggja kennara.

Aðgerðarhópur til að styðja kaup á nýrri miðstöð er tekinn til starfa
Ég kom sl. haust á laggirnar aðgerðarhópi til að vinna að því að kaupa nýja miðstöð. Það húsnæði yrði miðað við 400 börn þar sem ekki er talið heppilegt að fjöldi nemenda fari yfir það.

Nefndan hóp skipa
Ásdís Halla Bragadóttir
Elísabet Ronaldsdóttir
Eva María Jónsdóttir
Guðlaug Pétursdóttir
Helga Sverrisdóttir
Hervör Jónasdóttir
Hlín Sverrisdóttir
Jóhanna Kristjónsdóttir
Katrín Pétursdóttir
Linda Vilhjálmsdóttir
Margrét Jónasdóttir
Margrét Pála Ólafsdóttir
Nanna Lúðvíksdóttir
Rannveig Guðmundsdóttir
Steinunn Jónsdóttir
Svafa Grönfeldt

Þessi hópur mun efna til hádegisfundar 27.febrúar og er þá ætlun okkar að hver taki með sér fimm konur. Þá kynnum við þeim málið eins ítarlega og unnt. er. Vonandi getum við ofið kvennanet sem tekst að hrinda þessu í framkvæmd. Það er að minnsta kosti ætlunin og hefur hvergi verið blásið í lúðra og stendur ekki til.

Á næstunni verður því lögð áhersla á að safna fé til húsakaupa. Ekki er ætlun að taka fleiri styrktarbörn á því skólaári sem nú stendur yfir.
Næsta söfnun til þess er í ágúst 2008.